Rethink Ageing - málþing um dans og öldrun
Málþingið verður haldið 1. apríl 2020 í tengslum við lokafund verkefnisins Rethink Ageing Nordic: Art, Health & Research. Verkefnið er tengslanet aðila frá fimm Norðurlöndum og er styrkt af Norrænu menningargáttinni. Fyrsti fundur tengslanetsins var í Stokkhólmi vorið 2019 en lokafundur verkefnisins verður haldinn í Reykjavík í apríl 2020. Sérstakur gestur viðburðarins í Reykjavík verður þýski danshópurinn Resistdance, sem mun sýna verkið Best of 65 eftir danshöfundinn Silke Z.
Markmið málþingsins er að hefja samtal um dans og öldrun á breiðum grunni. Dans er holl hreyfing, en hann er líka list. Dansiðkun getur verið skemmtileg líkamsþjálfun, en hann opnar líka leiðir til tjáningar og virkjar ímyndunaraflið. Við viljum ná til fjölbreytts hóps þátttakenda; danslistafólks á öllum aldri, starfsfólks og þátttakenda í frístundastarfi eldri borgara, heilbrigðisstarfsfólks og áhugafólks um lýðheilsu svo eitthvað sé nefnt. Innihald málþingsins á sannarlega erindi við marga.
Drög að dagskrá má sjá hér fyrir neðan.
Nánar um verkefnið Rethink Ageing Nordic: Art, Health & Research og málþingið
Verkefnið Rethink Ageing Nordic: Art, Health & Research skoðar aldur og samtímadans frá ýmsum sjónarhornum. Hvernig er að eldast sem dansari? Hvaða áskoranir hefur það í för með sér? Opnar aldurinn ný tækifæri? Hvernig birtist mismunandi aldur á sviði? Hvaða áhrif hefur vinna með samtímadans á eldri borgara, sem ekki hafa bakgrunn í dansi? Hvaða gildi hefur þátttaka eldri borgara í listviðburðum?
Rethink Ageing Nordic byggir á samtali fimm norrænna danshöfunda, sem fást við viðfangsefnið dans og aldur með mismunandi hætti. Á einu ári eru haldnir fimm fundir í fimm löndum. Í tengslum við hvern fund er fleirum boðið til samtalsins og umræðan þannig stækkuð svo hún nái til samfélagsins á staðnum. Í Stokkhólmi tóku bæklunarlæknar virkan þátt í málþingi þegar fyrsti fundurinn var haldinn og í Árósum mættu fulltrúar frá sveitarfélögum á svæðinu til samtals, en þar er tilraunaverkefni um dans með öldruðum nýlega lokið og verið að taka ákvörðun um næstu skref.
Hér langar okkur að tengja verkefnið við ýmsa hópa sem vinna að auknum lífsgæðum á efri árum. Við erum í samstarfi við Berglindi Indriðadóttur iðjuþjálfa hjá Farsæl öldrun þekkingarmiðstöð sem hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga og tengt okkur við bæði áhugaverða hópa og fyrirlesara. Einnig erum við í samtali við Þórhildi Kristinsdóttur öldrunarlækni. Víða er unnið gott starf á þessu sviði, en við viljum efla hlut listarinnar og þá sérstaklega dansins í samtalinu um síðari helming æfinnar og hefur Ásgerður G. Gunnarsdóttir, listrænn stjórnandi Reykjavik Dance Festival þegar staðfest þátttöku í málþinginu.
Norrænir þátttakendur í Rethink Ageing Nordic: Art, Health & Research
Nønne Svalholm (DK)
Danski danshöfundurinn Nønne Svalholm hefur um árabil einbeitt sér að listrænum verkefnum með ófaglærðum dönsurum og aldurshópnum 60+. Hún hefur bæði gert stór hópverk sem reyna á samspil og hlustun og smærri verk sem gefa færi á að kafa dýpra. Hún vinnur nú að sólósýningu fyrir Sisse Lunøe, 69 ára.
Anna Nordanstedt (NO)
Eftir því sem árunum fjölgar breytist áhugasviðið og eftir langan feril sem dansari og danshöfundur vinnur Anna Nordanstedt nú einkum með eldri dönsurum. Hún er listrænn stjórnandi Creme Fraiché Dance Company (60+). Anna er framkvæmdastjóri Dans i Trøndelag og ráðgjafi hjá Nasjonalt kompetansesenter for kultur, helse og omsorg.
Björn Säfsten (SE)
Fyrir nokkru hófst samstarf Björn Säfsten og Dansens hus í Stokkhólmi, þar sem hann var fenginn til að vera með þátttökufyrirlestra fyrir almenning til að auka skilning á listdansi sem tjáningarleið. Námskeiðin slógu í gegn og í framhaldinu útfærði hann námskeiðið sérstaklega fyrir eldri þátttakendur. Námskeiðin eru í þeim anda að allir eigi rétt á að njóta listar og taka þátt í listsköpun.
Elli Isokoski (FI)
Finnski danshöfundurinn og kvikmyndagerðarkonan Elli Isokoski vinnur mikið með þeim sem vegna líkamlegrar eða andlegrar öldrunar eiga erfitt með að sækja listviðburði. Hún heimsækir fólk þar sem það býr og í gegnum stuttmyndaformið kanna þau hreyfingar, hugmyndir og dans saman. Nýjasta myndin er gerð eftir hugmynd Anja, 91 árs dansara, sem sjálf fer með aðalhlutverkið í myndinni.
Ólöf Ingólfsdóttir (IS)
Eftir langan feril sem danshöfundur og kennari, starfar Ólöf nú sem verkefnastjóri á Dansverkstæðinu. Hún hefur um árabil kennt músíkleikfimihópi Hafdísar Árnadóttur, en aldursbil hópsins er í dag 58 - 80 ára. Ólöf hefur nú hafið listrænt samstarf við hópinn og hefur hópurinn m.a. sýnt á Golden Age Gym Festival á Ítalíu.
Dansverkstæðið
Dansverkstæðið - vinnustofur danshöfunda, var stofnað árið 2010 af hópi danshöfunda sem vildi bæta vinnuaðstöðu danslistafólks. Dansverkstæðið leigir æfingasali til sviðslistafólks; danslistafólks, leikhópa, óperuhópa og sirkuslistamanna.
Dansverkstæðið skipuleggur reglulega þjálfunartíma og námskeið fyrir dansara og annað sviðslistafólk. Með aðild að ýmsum alþjóðlegum verkefnum tekur Dansverkstæðið þátt í uppbyggingu danslistarinnar og stuðlar að auknum tækifærum fyrir danslistafólk. Dansverkstæðið er sameiginlegur vettvangur og heimili sjálfstætt starfandi danslistafólks.
Drög að dagskrá: Miðvikudagur 1. apríl 2020
10 - 12: Hvað eru danshöfundar að hugsa? Þátttökufyrirlestur - Björn Säfsten (SE)
12 - 13 Hádegishlé. Súpa og brauð í boði hússins.
13 - 15 Stutt erindi
-
List og lýðheilsa. Möguleikar listarinnar til að auka lífsgæði á efri árum - fyrirlesari óstaðfestur.
-
Dansstuttmyndir. Leið til sköpunar með eldri borgurum - Elli Isokoski (FI).
-
Dansað í 60 ár - Hafdís Árnadóttir, músíkleikfimikennari og eigandi Kramhússins.
-
Sköpunarkrafturinn er aldurslaus - Nønne Svalholm (DK)
-
Innlendur fyrirlesari úr heilbrigðisgeiranum segir frá sinni vinnu - fyrirlesari óstaðfestur
-
Aldur og sýnileiki - Anna Nordanstedt (NO)
15 - 16 Umræður og kaffi - Ólöf Ingólfsdóttir stýrir umræðum.
Hlé
19 - 20 Best of 65. Danssýning þýska danshöfundarins Silke Z og Resistdance.